Landsins villta hjarta – ljósmyndasýning

Undanfarnar vikur höfum við staðið í ströngu við að undirbúa ljósmyndasýningu. Sölusýningu. Sýningin hefst Laugardaginn 12. maí kl 14.00 og verður haldin að Brúnum í Eyjafjarðarsveit. Brúnir eru beint á móti Hrafnagili og þar er nýbyggt myndarlegt kaffi- og listhús.  Aðstaðan þar til sýninga er til fyrirmyndar.

Heiti sýningarinnar er „Landsins villta hjarta“. Þar vísum við í nafn bókarinnar okkar Iceland – wild at heart. Bókin hefur frá því hún kom út verið á metsölulista yfir mest seldu bækurnar í flokki landkynningabóka. Hún seldist upp eftir einungis fjóra mánuði á síðasta ári og er nýlega komin aftur í búðir. Okkur þótti við hæfi að nefna sýninguna í anda bókarinnar.

Það hefur verið fróðleiksríkur ferill að undirbúa sýninguna. Það eitt og sér að velja myndir er ærið verkefni. Grundvöllur þess að vaxa sem ljósmyndari er að rækta hæfileikann til að gagnrýna eigin verk grimmilega. Við sýnum í raun líka hjartað í okkur sem ljósmyndarar því sýningin tekur á því sem okkur er mest hugleikið. Íslensk náttúra og landslag. Á vissan hátt sýnir hún hjartað í okkur líka.

Þrjár prentaðferðir koma við sögu. Chromaluxe, strigi og ljósmyndaprentun. Hver og ein aðferð er valin eftir því hvað við teljum henta hverri mynd. Chromaluxe prentunin er tiltölulega ný af nálinni hér á landi en í okkar huga er þessi aðferð spennandi valkostur í ljósmyndaprentun. Mjög sérstök. Um fjórðungur sýningarinnar er prentaður með þessari aðferð. Litadýpt, skerpa og birta nær að njóta sín sérlega vel með þessari prentaðferð. Hún byggist á sérstökum húðuðum plötum sem hitaðar eru í 180-200 gráður. Liturinn í myndinni fer inn í plötuna og þegar hún kólnar lokast myndin og útkoman er sérstök. Sjón er sögu ríkari.

Myndirnar á sýningunni eru stórar og smáar. Stærstu myndirnar eru 120 x 80 sm og minnstu 30 x 40 sm. Allar ljósmyndirnar á sýningunni sem eru í glerramma eru með sérstöku glampalausu gleri. Eitt af því sem við höfum áttað okkur endanlega á við undirbúning þessarar sýningar er að hér eftir verður einungis notast við glampalaust gæða-gler. Ljósmyndirnar eru prentaðar á hágæða ljósmyndapappír sem við réttar aðstæður endist í áratugi. Blekið er sömuleiðis pigment blek sem ætlað er að endast.

Allar myndirnar á sýningunni eru undirritaðar og númeraðar og prentaðar í takmörkuðu upplagi.

Það væri gaman að sjá sem flesta á sýningunni. Hún hefst laugardaginn 12. maí klukkan 14.00 með stuttri kynningu frá okkur höfundum. Opið er um helgar að brúnum á milli kl 14.00-18.00 fram að 14. júní en eftir það er opið alla daga frá 12.00-21.00. Sýningin stendur til 2. júlí.

Vonir standa til að finna heppilegan stað í höfuðborginni fyrir sýninguna. Við erum ekki farin að leita en vonandi náum við að sýna hana þar í sumar og haust.