Fuglahvíslararnir í bakgarðinum

    Hettusöngvari

    Undanfarin ár hafa svartþröstur og hettusöngvari haldið til í bakgarðinum okkar. Þessir litlu gestir treysta á að fá að borða yfir vetrarmánuðina og það er eitthvað huggulegt við það að vitja þeirra á hverjum morgni í svartamyrkri og gefa þeim perur, epli og annað góðgæti. Svartþrösturinn er afskaplega gæfur og hikar ekki við að koma í ætið þrátt fyrir að staðið sé nánast uppvið hann. Hettusöngvarinn er hinsvegar kvikari og lætur ekki nálgast sig auðveldlega. Þeir mæta báðir flesta daga og oft bíður svartþrösturinn eftir því að fá matarskammtinn sinn. Líklega er þetta fjórða árið sem þeir tveir venja komur sínar í garðinn. Á mínu heimili flokkast þessir tveir því undir gæludýr til viðbótar við hundinn okkar. Kútur, Shih-tzu hundurinn okkar vappar um bakgarðinn að vild án þess að svartþrösturinn kippi sér upp við það. Hann veit nefnilega að sjáist einn af hinum fjölmörgu köttum sniglast í nágrenni við garðinn er Kútur fljótur að láta til sín heyra. Við Kútur erum því orðnir einskonar fuglahvíslarar.

    Erfiðast er að ná myndum af hettusöngvaranum sem er kvikur og stoppar sjaldan. Eina leiðin til að mynda hann er að nota löngu linsurnar. Svartþrösturinn er hinsvegar auðveldari viðureignar. Lengi vel notaði ég sömu aðferð á hann og myndaði með 500 mm aðdrætti. Það var þar til ég áttaði mig á að auðvitað gæti ég einfaldlega farið út til hans og myndað hann með hvaða linsu sem er því traustið er orðið slíkt að hann fer ekki þó einungis einn metri sé í linsuna. 70-200 f2,8 er því orðin ágætis fuglalinsa – fyrir gæludýrin hið minnsta.